Náms- og starfsendurhæfing

Náms- og starfsendurhæfing

Ert þú á leiðinni út á vinnumarkaðinn aftur eftir langvinn veikindi eða slys? Hefur þú nýlokið endurhæfingu á sjúkrastofnun og þarft að finna næsta skref á leið út í lífið? Hér listum við upp nokkur af þeim úrræðum sem aðstoða einstaklinga við að finna sér farveg í lífinu.

Hringsjá náms- og starfsendurhæfing

Vefsíða Hringsjár

Hringsjá er náms- og starfsendurhæfing fyrir fólk sem vill komast aftur út á vinnumarkaðinn eftir hlé vegna sjúkdóma, slysa eða annarra áfalla. Endurhæfingin felst í einstaklingsmiðuðu námi í formi styttri námskeiða eða fullu einingarbæru námi með sérhæfðri ráðgjöf og stuðningi. Markmið Hringsjár er að þeir sem til þeirra leita verði færir um að takast á við nám í almennum framhaldsskólum og finni störf við hæfi á almennum vinnumarkaði.

Hlutverkasetrið

Vefsíða Hlutverkaseturs

Hlutverkasetur býður upp á umgjörð, hvatningu og stuðning fyrir þá sem vilja viðhalda virkni á markvissan hátt eða auka lífsgæðin. Stefnt er að því að viðhalda eða efla sjálfsmynd gegnum verkefni, fræðslu og umræður. Markmið Hlutverkaseturs er að einstaklinigar sem þangað leita komist út á almennan vinnumarkað, fari í nám eða auki lífsgæði sín.

Leiðarljós Hlutverkaseturs er virk samfélagsþátttaka, að sinna hlutverkum sem gefa lífinu tilgang og þýðingu, jákvæðni og kímni.

Samvinna starfsendurhæfing - Reykjanesbæ

Vefsíða Samvinnu

Hugmyndafræði Samvinnu gengur út á að vinna að heilstæðri úrlausn með hindranir þátttakenda á einstaklingsmiðaðan hátt. Þátttakandi er sjálfur virkur í sinni endurhæfingu frá upphafi þar sem hann kemur með virkum hætti að gerð sinnar endurhæfingaráætlunar. Endurhæfingin fer að mestum hluta fram í hóp, t.d. með námskeiðum, fræðslu, hópefli og líkamsþjálfun en einnig á einstaklingsmiðaðan hátt þar sem tekið er mið að þörfum hvers og eins til dæmis með viðtölum eða þjálfun hjá fagaðilum, vinnuprufun eða starfsþjálfun.

Virk starfsendurhæfingarsjóður - Reykjavík

Vefsíða VIRK starfsendurhæfingarsjóðs

Hlutverk Starfsendurhæfingarsjóðs er að draga markvisst úr líkum á því að launafólk hverfi af vinnumarkaði vegna varanlegrar örorku, með aukinni virkni, eflingu endurhæfingar og öðrum úrræðum. Hjá VIRK starfsendurhæfingarsjóði er einstaklingum veitt aðstoð í formi ráðgjafar og starfsendurhæfingar ef vinnugeta skerðist til dæmis vegna veikinda eða slyss. Á vefsíðu VIRK má finna upplýsingar um ýmsa þjónustu sem getur nýst þeim sem vilja auka starfsgetu sína.

Hefur þú ábendingar eða frekari spurningar? Hafðu samband hér