Hér má finna skóla sem flokkast sem fullorðinsfræðsla og styttra nám sem getur nýst sem undirbúningur til frekara náms.
Athugið að efni hér fyrir ofan er fengið af vef viðkomandi stofnana/fyrirtækja
Fræðsla, símenntun og námskeið Fræðslu- og símenntunarstöðvar bjóða upp á ýmis námskeið, nám og endurmenntun starfsstétta. Hjá sumum þeirra er boðið upp á nám og námskeið sem hægt er að stunda á atvinnuleysisbótum. Á flestum þessara staða er boðið upp á náms- og starfsráðgjöf. Á vefnum Island.is má finna yfirlit yfir símennt og fullorðinsfræðslu og þær reglur sem gilda um það.
Lýðháskóli er skólagerð sem þróaðist á Norðurlöndum einkum Danmörku og byggir á hugsjónum og hugmyndum N.F.S. Grundtvig. Lýðháskólar voru upprunalega alþýðuskólar fyrir fullorðna nemendur 18 ára og eldri sem voru að búa sig undir lífið og kennslan miðaðist við að gera nemendur að góðum borgurum. Skólinn átti að búa nemendur undir lífið en ekki próftökur og embætti. Með tímanum þróaðist skólaformið og meiri áhersla varð á þróun einstaklingsins. Nú eru lýðháskólar á flestum norðurlöndum sem íslendingar geta einnig sótt.
Norræna félagið á Íslandi veitir upplýsingar um nám í lýðháskólum á Norðurlöndunum. Þar að auki veitir félagið árlega styrk til íslenskra nemenda sem stunda nám í lýðháskóla í öðru norrænu landi. Styrkurinn er háður fjárveitingu frá Nordplus. Á heimasíðu norræna félagsins á Íslandi er að finna allar tengiliðaupplýsingar.
Egmont Højskolen er lýðháskóli á Jótlandi í Danmörku sem býður upp á sérstaka aðlögun og einnig sérstök tilboð fyrir nemendur sem vilja vera aðstoðarmenn fatlaðra nemenda.
Ungmennafélag Íslands og Højskolernes Hus í Kaupmannahöfn eru með samstarfssamning um verkefni tengt námsdvöl íslenskra ungmenna í dönskum lýðháskólum. Højskolernes Hus heldur utan um alla lýðháskóla í Danmörku og því er námsframboðið fjölbreytt.
Markmið með styrkveitingunni er að gefa ungu fólki tækifæri til að víkka sjóndeildarhring sinn. Einnig tækifæri til að kynnast nýju tungumáli og menningu, auka færni sína og þekkingu á völdu sviði í gegnum óformlegt nám og styrkja leiðtogatogahæfileika sína um leið.
Umsóknarfrestir eru tvisvar sinnum á ári. Á haustin, ágúst/september, er opið fyrir umsóknir fyrir haustönn og heilt skólaár. Um áramót, desember/janúar, er opið fyrir umsóknir fyrir vorönn.
Athugið að efni hér fyrir ofan er fengið af vef viðkomandi stofnana/fyrirtækja.
Hefur þú ábendingar eða frekari spurningar? Hafðu samband hér