Fjárhagsvandi

Ýmis aðstoð er í boði fyrir þá sem eiga erfitt með að láta enda ná saman fjárhagslega.
Hér fyrir neðan eru taldar upp nokkrar stofnanir og fyrirtæki sem geta veitt aðstoð.

Félagsþjónusta sveitarfélaga

Samkvæmt lögum um félagslega aðstoð nr.40/1991 er sveitarfélögunum skylt að veita fjárhagsaðtoð til þeirra sem falla undir reglur um fjárhagsaðstoð.

Fjármálaráðgjöf

Umboðsmaður skuldara

Hlutverk umboðsmanns skuldara samkvæmt lögum er m.a. að gæta hagsmuna skuldara og veita þeim aðstoð þegar við á. Hann á að veita einstaklingum sem eiga í verulegum greiðsluerfiðleikum endurgjaldslausa aðstoð við að öðlast heildarsýn á fjármál sín og hafa milligöngu um samskipti og samninga við lánardrottna með hagsmuni skuldara að leiðarljósi. Einnig á hann að veita aðstoð við gerð samninga um greiðsluaðlögun og að veita alhliða ráðgjöf og fræðslu um fjármál heimilanna. Síðast en ekki síst á hann að útbúa framfærsluviðmið og uppfæra þau reglulega og taka við erindum og ábendingum skuldara um ágalla á lánastarfsemi og senda áfram til viðeigandi eftirlitsstjórnvalds.
Nánari upplýsingar um umboðsmann skuldara má finna á vefsíðu umboðsmanns skuldara.

Á vef umboðsmanns skuldara má finna ýmis ráð til að forðast greiðsluvanda, einnig eru þar tenglar á ýmsar reiknivélar sem getur verið gott að skoða.

Sparnaður

Sparnaður er fyrirtæki sem sérhæfir sig í ráðgjöf varðandi uppgreiðslu lána og hægt er skrá sig í uppgreiðsluþjónustu hjá Sparnaði sem er óháð viðskiptabönkunum. Nánar um Sparnað.

Fjölskylduhjálp Íslands

Fjölskylduhjálp hefur það hlutverk að hjálpa öllum þeim landsmönnum sem minna mega sín, hvort sem það eru öryrkjar, atvinnulausir, einstæðar mæður eða feður, eldri borgarar, fátækar fjölskyldur eða einstæðingar eins og kemur fram á vefsíðu þeirra. Aðstoð Fjölskylduhjálparinnar er í formi úthlutunar á mat og úr lyfjasjóði og sölu á ódýrum fatnaði.Mögulegt er að sækja um úthlutun vegna ferminga.
Úthlutun á mat og nauðsynjavörum fer fram annan og fjórða miðvikudag í mánuði. Fólk þarf að sýna fram á að aðstæður þeirra séu slæmar svo sem með því að sýna launaseðla eða skattframtöl.  Á úthlutunardögum getur fólk komið kl. 10 og fengið númer svo það þurfi ekki að bíða í biðröð en úthlutunin sjálf hefst kl. 14:00.
Sjá einnig facebook síðu Fjölskylduhjálpar Íslands.

Hagsmunasamtök heimilanna

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 í þeim tilgangi að berjast fyrir almennri leiðréttingu lána og afnámi verðtryggingar eins og kemur fram á vefsíðu samtakanna.

Hjálparstarf kirkjunnar

Hjálparstarf kirkjunnar veitir bágstöddum um allt land aðstoð, árið um kring eins og kemur fram á vefsíðu hjálparstarfsins. Félagsráðgjafar og sjálfboðaliðar á vegum Hjálparstarfsins veita ráðgjöf og aðstoð eftir aðstæðum. Barnafjölskyldur geta fengið inneignarkort í matvöruverslunum en einstaklingum er vísað á aðrar stofnanir varðandi mat. Allir geta sótt um aðstoð við að leysa út lyf, fengið stuðning við skólagöngu og tómstundir barna, fatnað og fleira eftir aðstæðum. Hægt er að fá einstaklings- og fjölskylduráðgjöf, fjármálaráðgjöf og markþjálfun, allt ókeypis hjá reyndu fagfólki. Auk þess er hægt að sækja um sérstaka jólaaðstoð.
Athuga þarf að öllum umsóknum þurfa að fylgja gögn varðandi tekjur og gjöld umsækjanda.
Tekið er við umsóknum á miðvikudögum kl. 12-16 og úthlutun fer svo fram viku síðar. Föt eru afgreidd á þriðjudögum kl. 10-12.

Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur

Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur úthlutar matvælum til fjölskyldna hvern miðvikudag kl. 13:00-15:00 að Hátúni 12. Úthlutun matar til einstaklinga er hvern þriðjudag kl. 13:00-15:00. Fatnaði og ýmsum smávörum er úthlutað fyrsta miðvikudag í hverjum mánuði. Nýfædd börn fá gjafapakka með fatnaði og öðrum nauðsynjum. Sérstök jólaúthlutun er fastur liður í starfseminni og hefur hún hin síðustu ár verið í samstarfi við Hjálparstarf kirkjunnar og Rauða kross Íslands. Veittir hafa verið fermingarstyrkir á hverju vori.

Mæðrastyrksnefnd Hafnarfjarðar

Mæðrastyrksnefnd Hafnarfjarðar er með matarúthlutanir fyrir jólin og er einnig mögulegt að fá matarúthlutun vegna ferminga og stundum eru matarúthlutanir fyrir páska.

Úrræði vegna lána

Í sumum tilfellum er hægt að fresta greiðslu lána eða að frysta lánin:


Athugið að efni hér fyrir ofan er fengið af vef viðkomandi stofnana/fyrirtækja.

Hefur þú ábendingar eða frekari spurningar? Hafðu samband hér