Lögfræðiþjónusta og réttindagæsla

Ef einstaklingur með hreyfihömlun er ósáttur við meðferð mála sinna hjá stjórnsýslunni eru nokkrar leiðir til að kæra málið.

Hvernig virkar stjórnsýslan?

Almenningur á rétt á að kæra ákvarðanir sem teknar eru af stjórnsýslunni. Fyrir einstaklinga með hreyfihamlanir geta það verið ákvarðanir um úthlutun hjálpartækja, varðandi almannatryggingar og styrki svo dæmi séu tekin. Þegar ákvörðun hefur verið tekin um að kæra ákvörðun eru eftirfarandi leiðir í boði:

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Hlutverk Úrskurðarnefndar velferðarmála er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum. Frekari upplýsingar um nefndina má sjá á heimasíðu hennar.

Umboðsmaður Alþingis

Ef einstaklingur er ósáttur við niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar er möguleiki að kæra málið áfram til Umboðsmanns Alþingis. Til umboðsmanns má kvarta út af hvers konar ákvörðunum, úrlausnum, málsmeðferð og háttsemi ráðuneyta, ríkisstofnana og annarra aðila, sem fást við stjórnsýslu ríkisins. Sama gildir um sveitarstjórnir og aðra aðila, sem fást við stjórnsýslu á vegum sveitarfélaganna. Einnig má kvarta yfir ákvörðunum einkaaðila að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Almenn skilyrði eru þó að fyrst þarf að kæra mál til æðra stjórnvalds innan þeirrar stofnunnar, eins og til dæmis úrskurðarnefndar velferðarmála. Nánari upplýsingar má fá um verkferla umboðsmanns á heimasíðu stofnunarinnar.

Dómstólar

Dómstólar skiptast í þrjú stig: Hérðasdómur, Hæstiréttur og Landsréttur. Ef einstaklingur með hreyfihömlun er ósáttur við niðurstöðu ákvörðunar stjórnsýslunnar og hefur prófað allar aðrar kæruleiðir, er mögulegt að kæra til dómstóla. Hægt er að lesa allar nánari upplýsingar á heimsdíðu Dómstólasýslunnar.

Hvar er hægt að fá aðstoð við að kæra mál?

Lögfræðiráðgjöf

ÖBÍ - réttindasamtök

Á skrifstofu ÖBÍ býðst fötluðu fólki og aðstandendum þeirra frí ráðgjöf félagsráðgjafa og lögfræðinga um réttindamál. Hægt er að fá frekari upplýsingar um þessa þjónustu á heimasíðu samtakanna.

Lögfræðiaðstoð Orators - félags laganema við Háskóla Íslands

Orator veitir almenningi endugjaldslausa lögfræðiaðstoð Starfsemin hefst í september ár hvert og stendur fram í miðjan apríl, að undanskyldum desembermánuði þar sem laganemar þreyta próf við deildina á þeim tíma. Aðstoðin er veitt símleiðis og því hentar hún hreyfihömluðum vel. Nánari upplýsingar má fá á heimasíðu Orators.

Jafnréttisstofa

Hlutverk Jafnréttisstofu er að annast stjórnsýslu á sviði jafnréttismála, jafna meðferð utan vinnumarkaðar og jafna meðferð á vinnumarkaði. Hægt er að fá ráðgjöf og aðstoð við að skoða mál sem varða til dæmis jafna meðferð einstakling með hreyfihömlun á vinnumarkaði. Hægt er að fá frekari upplýsingar á heimasíðu stofnunarinnar.

Réttindagæsla og persónulegir talsmenn

Fatlaður einstaklingur sem á vegna fötlunar sinnar erfitt með að gæta hagsmuna sinna skal eiga rétt á persónulegum talsmanni. Fatlaður einstaklingur velur sér talsmann í samráði við sýslumann. Hægt er að lesa nánar um persónulega talsmenn á Ísland.is.

Verkefni réttindagæslunnar eru nú komin undir einkaaðila og hægt er að komast í samband við þá aðila í gegnum síma og tölvupóst sem má fá upplýsingar um á Ísland.is.

Hefur þú ábendingar eða frekari spurningar? Hafðu samband hér