Kaup á bifreið / styrkir

Skilyrði fyrir styrkjum frá Tryggingastofnun

Lífeyrisþegar með hreyfihömlun (sjúkdóm eða fötlun sem skerðir verulega færni til að komast ferða sinna) geta átt rétt á uppbót til reksturs bifreiðar og/eða styrkjum til bifreiðakaupa.

Samkvæmt heimasíðu TR er fyrst og fremst um að ræða:

  • Lömun eða skertan hreyfanleika í ganglimum af völdum sjúkdóms eða fötlunar
  • Mæði vegna hjarta- eða lungnasjúkdóma
  • Annað sambærilegt

Blindir geta átt rétt á uppbót vegna reksturs bifreiða og kaupa á bifreið.

Með styrkveitingunni er TR með veð í bílnum, og því er ekki leyfilegt að selja bílinn nema með leyfi TR. Nánar um bifreiðamál á vefsíðu TR.

Ég ætla að kaupa mér bíl, hvað þarf ég að gera ?

  • Kynntu þér málið vel á vefsíðu TR - um bifreiðamál - þar kemur m.a. fram:
  • Fylla út umsóknina á vefsíðu TR Mínar síður -  með umsókninni er sent heyfihömlunarvottorð frá lækni.
  • Hægt er að sækja um styrk allt árið, á 5 ára fresti (miðað er við þann mánuð sem bifreiðakaup fóru fram í fyrsta sinn).
  • TR sendir svar til baka innan nokkurra vikna og kallar þá eftir auka upplýsingum ef á þarf að halda.
  • Þegar jákvætt svar hefur borist frá TR er bara að finna rétta bílinn.

Ég ætla að selja bílinn minn og kaupa nýjan

Ekki þarf að sækja um leyfi TR ef keyptur er nýr bíll

Ég ætla að selja bílinn minn og kaupi ekki nýjan

Ef bifreið er seld innan fimm ára og ekki keyptur nýr í staðinn þarf að endurgreiða hluta styrksins. Útreikningur endurgreiðslu miðast við fjölda mánaða sem eftir eru af fimm ára tímabilinu. Ef bíll er seldur eftir fjögur ár þarf að endurgreiða 1/5 styrksins.

Undanþágur eru veittar vegna:

  • Andláts styrkþega
  • Ef bifreið eyðileggst í árekstri á fimm ára tímabilinu og styrkþegi fær ekki bætur frá tryggingafélagi vegna tjónsins.
  • Ef styrkþegi og maki skilja og makinn fær bifreiðina. Styrkþegi getur þó ekki fengið nýjan styrk fyrr en að fimm árum liðnum. 
Lán TR til bifreiðakaupa

Tryggingastofnun ríkisins veitir lán til bifreiðakaupa . Á vefsíðu TR, undir liðnum bifreiðamál má finna upplýsingar um lánin, s.s. hverjir hafa rétt á láninu, hve há lánsfjárhæðin er o.s.frv.

Niðurfelling bifreiðagjalda

Lífeyrisþegar geta átt rétt á niðurfellingu bifreiðagjalda (undanþegnir bifreiðagjaldi). Réttindi varðandi bifreiðamál eru á vegum Tryggingastofnunar.  Tryggingastofnun staðfestir rétt lífeyrisþega á niðurfellingu eða leiðréttingu bifreiðagjalda. Umsækjandi sækir um með eyðublaðinu „Umsókn um niðurfellingu bifreiðagjalda" og þarf að undirrita hana. Einnig fyllir tengiliður Tryggingastofnunar út hluta eyðublaðsins. Umsóknin þarf að berast til ríkisskattstjóra sem sér um niðurfellingu eða leiðréttingu bifreiðagjald.

Samantekt TR um reglur vegna niðurfellingar bifreiðagjalda

Undanþegnir bifreiðagjaldi eru þeir sem fá greiddan:

  • Örorkulífeyri
  • Uppbót vegna reksturs bifreiðar
  • Örorkustyrk
  • Forráðamenn barna sem fá umönnunargreiðslur
  • Ellilífeyrisþegar sem fá greidda uppbót vegna reksturs bifreiðar
  • Ellilífeyrisþegar sem voru á örorku
  • Ellilífeyrisþegar sem voru öryrkjar og öryrkjar sem dveljast á stofnun
  • Foreldrar langveikra og fjölfatlaðra barna sem vistuð eru utan heimilis ef réttur til umönnunargreiðslna héldist óskertur væri barnið heima.

Endurhæfingarlífeyrir gefur ekki rétt til niðurfellingar bifreiðagjalda.

Skilyrði fyrir niðurfellingu gjaldsins er að viðkomandi hafi einhverjar greiðslur frá TR.
Ef umsækjandi er vistmaður á stofnun og hefur ekki lengur greiðslur frá TR en hafði þær áður en hann kom þangað þá á viðkomandi rétt á niðurfellingu.
Réttur til þeirra sem fá greiddan örorkulífeyri, uppbót vegna reksturs bifreiðar eða örorkustyrk er bundinn því skilyrði að bótaþegi sé í ökutækjaskrá annað hvort skráður eigandi bifreiðar eða umráðamaður bifreiðar samkvæmt eignarleigusamningi.
Réttur foreldra sem fá umönnunargreiðslur er bundinn því skilyrði að skráður eigandi bifreiðar búi á sama stað og barnið.

Til kaupa á bifreið/sérútbúinni bifreið - vörugjöld

TR veitir uppbót/ styrk að fjárhæð 360.000 kr. (720.000 kr. fyrir þá sem eru að kaupa bifreið í fyrsta sinn á ævinni).  Heimilt er að veita styrk að fjárhæð 1.440.000 kr. til að kaupa bifreið sem nauðsynleg er vegna mikillar hreyfihömlunar og umsækandi notar hjálpartæki t.d. hjólastól eða 2 hækur að staðaldri.  Einnig veitir TR styrk til framfæranda hreyfihamlaðs barns sem nýtur umönnunargreiðslna. 

TR veitir styrk til kaupa á sérútbúnum bifreiðum sem nemur allt að 50-60% af kaupverði bifreiðar, það er grunnverði án aukabúnaðar, ef um er að ræða einstakling sem ekki kemst af án sérútbúinnar og dýrrar bifreiðar vegna mikillar fötlunar. Hámarksstyrkur er 6.000.000 kr. Áður en uppbót eða styrkur er greiddur skulu lagðar fram upplýsingar um kaupverð bifreiðar. Kaupverð bifreiðar skal ekki vera lægra en fjárhæð uppbótar eða styrkjar. 

Gott er að hafa í huga, sérstaklega þegar sótt er um fyrsta bíl, að sækja einnig um hjálpartækin í bílinn samtímis til að sýna fram á þörfina fyrir sérútbúnum bíl. Umsóknin um bílinn er afgreidd hjá TR en umsóknin um hjálpartæki hjá .


Innflutningur á bifreið
Þurfi einstaklingur, sem á rétt á 60% styrk frá TR,  að flytja bifreiðina inn til landsins þar sem hentug bifreið er ekki til hér á landi, ætti hann að sækja um niðurfellingu á vörugjöldum hjá Tollinum (sjá reglugerð 331/2000 um vörugjald af ökutækjum, 19. grein liður 2).  Þegar styrkur er sóttur til TR þarf að koma fram á reikningum að vörugjöldin hafi verið felld niður eða staðfesting þess efnis frá Tollinum. Virðisaukaskattur er ekki felldur niður og er því tekinn með í upphæð bílsins þegar styrkurinn er reiknaður út.

Hægt er að sækja um styrk allt árið en hafi verið veittur styrkur áður þurfa að líða 5 ár þar til næsti styrkur er veittur, nema í sérstökum undantekningartilvikum. Það þýðir að ef einstaklingur fær styrk 1. nóvember 2019 þá getur hann næst sótt um styrk 1. nóvember 2024.

Uppbót vegna kaupa á bifreið

Heimilt er að greiða lífeyrisþega og örorkustyrkþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar.  Einnig er heimilt að veita uppbót til framfæranda hreyfihamlaðs barns sem nýtur umönnunargreiðslna.

Uppbót er 720.000 kr. fyrir þá sem eru að kaupa bifreið í fyrsta sinn á ævinni, annars er hún 360.000 kr.

Uppbót/styrkur vegna reksturs bifreiðar

Ellilífeyrisþegar, örorkulífeyrisþegar og örorkustyrkþegar geta átt rétt á mánaðarlegri uppbót til að mæta kostnaði við rekstur bifreiðar. Skilyrði er að nauðsynlegt sé fyrir viðkomandi að hafa bifreið vegna hreyfihömlunar og sýnt að hann geti ekki komist af án uppbótarinnar.

  • Sótt er um uppbót eða styrk í gegnum Mínar síður á vefsíðu TR.

Sjúkratryggingar Íslands

SÍ veitir styrk til kaupa á hjálpartækjum í bifreið.

Sjúkratryggingar Íslands veita styrk til kaupa á hjálpartækjum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Dæmi um hjálpartæki í bifreiðar er lyfta, sjálfskipting og stýrisbúnaður. Leiðbeiningar um hvernig sækja skal um hjálpartæki.

Sérútbúnaður fyrir bifreiðar

Öryggismiðstöðin

Öryggismiðstöðin býður ýmsar lausnir varðandi sérbúnað í bíla fyrir hreyfihamlað fólk. Lausnir eins og hækkun á pedulum, lyftur og rampar, stýrishnúðar og stöng fyrir bensíngjöf og bremsur. Oft eru fleiri en ein útgáfa af hverri lausn og misjafnt er hvað hentar hverjum og einum. Öryggismiðstöðinni.

Sérútbúin sæti

Hreyfihamlaðir einstaklingar geta þurft á sérútbúnu sæti að halda til að geta keyrt bíl. Stoð sér um að búa til slíkt sæti sem mótað er að einstaklingnum og þörfum hans. Hægt er að sækja um styrk til kaupa á sérsmíðuðu sæti til Sjúkratrygginga Íslands og er réttur til styrks metinn út frá reglugerð. Nánar um þjónustu Stoð.

Helstu stofnanir sem sinna bifreiðamálum

Samgöngustofa

Samgöngustofa fer með stjórnsýslu á sviði umferðarmála, einkum varðandi umferðarreglur, ökutæki, ökutækjaskráningar, ökupróf og ökunám, umferðarfræðslu og slysaskráningar. Þar má einnig finna eyðublöð vegna skráningar ökutækis, taka æfingapróf á netinu og fá ýmsar upplýsingar.

Vegagerðin

Á heimasíðu Vegagerðarinnar er að finna margs konar fróðleik fyrir ökumenn og aðra vegfarendur. Sem dæmi má nefna vefmyndavélar við alla helstu vegi landins til að sjá t.d. umferð eða snjómagn á veginum. Bæði er til yfirlitssíða vefmyndavéla og líka svokölluð "vegasjá".

Að taka bílprófið

Ef þú hefur samband við Ökukennarafélag Íslands getur þú fengið kennara sem sérhæfir sig í að kenna hreyfihömluðum á mikið breyttum bílum og/eða kennir á sjálfskiptan bíl.

Að kaupa bíl með lyftu til fólksflutninga

Ef kaupandinn er með vottorð frá Sjúkratryggingum Íslands um nauðsyn þess að vera á bifreið fyrir hjólastóla þá er hægt að fella niður vörugjöld.

Annað hvort er keypt óbreytt bifreið að utan og sótt um frestun á greiðslu vörugjalda við tollafgreiðslu, eða keypt er breytt bifreið og við framvísun vottorðs sjúkratrygginga þá falla vörugjöldin niður við tollafgreiðslu sjálfkrafa, eða að óbreytt bifreið er keypt og öll gjöld greidd við tollafgreiðslu en svo er sótt um endurgreiðslu vörugjalda eftir breytingu bifreiðarinnar.

Athugið að efni hér fyrir ofan er fengið af vef viðkomandi stofnana/fyrirtækja

Hefur þú ábendingar eða frekari spurningar? Hafðu samband hér