Íþróttagreinar

Íþróttagreinar

Sund

Sundið er sú íþróttagrein sem hefur verið hvað lengst stunduð af fötluðu fólki. Fatlaðir íslenskir sundmenn hafa frá upphafi verið mjög sigursælir á alþjóðlegum mótum, en ÍFR hefur t.d. átt keppendur í sundi á fjölda Norðurlanda- Evrópu- Heimsmeistara- og Ólympíumótum fatlaðs fólks.

Boccia

Boccia er vinsælasta íþróttagreinin á meðal fatlaðs fólks hér á landi. Í boccia er leikið með 6 mislitum boltum og einum hvítum. Hvíta boltanum er fyrst kastað fram á völlinn og síðan er markmiðið að hitta sem næst honum með hinum boltunum. Það lið sem hefur fleiri bolta nær þeim hvíta hlýtur flest stig. Reglur og lýsing á boccia.

Borðtennis

Borðtennis hefur verið iðkað hjá Íþróttafélagi fatlaðra frá stofnun þess. Ísland hefur átt keppendur á Ólympíleikum. Auðvelt er að aðlaga leikinn að hreyfihömluðum þar sem keppt er bæði í standandi og sitjandi flokki.

Bogfimi

Bogfimi hefur staðið einstaklingum með hreyfihömlun til boða frá stofnun Íþróttafélags fatlaðra. Auðvelt er að aðlaga leikinn að mismunandi getu og dæmi eru um að ófatlaðir hafi einnig æft íþróttina með fötluðum.

Golf

Á undaförnum árum hefur golf orðið vinsæl íþrótt á meðal fatlaðra. Golfsamtök fatlaðra á Íslandi standa fyrir golfæfingum sem geta einnig hentað hreyfihömluðum.

Hestamennska

Hestamannafélagið Hörður í Mosfellsbæ býður fötluðu fólki upp á reiðnámskeið. Sjá nánari upplýsingar á heimasíðu félagsins.

Skíðaiðkun

Með rétta búnaðinum geta flest allir komist á skíði. Sá sérbúnaður sem hreyfihamlað fólk hefur nýtt sér eru stafaskíði (hefðbundin skíði á fótum en skíðastafurinn er einnig með skíðum), setskíði og skíðagrind.

Skotfimi

Skotfélag Reykjavíkur er með æfingar í skotfimi og þar hafa hreyfihamlaðir verið að æfa. Það eru þjálfarar á staðnum og þeir lána byssur. Sjá nánar hjá heimasíðu Skotfélags Reykjavíkur

Píla

Pílufélag fatlaðra býður upp á æfingar í pílu fyrir hreyfihamlaða. Hjá þeim er mjög gott aðgengi og hægt að aðlaga leikinn af hverjum og einum. Þar er aðgangur að öllum búnaði og hægt að fá hann lánaðan.


Athugið að efni hér fyrir ofan er fengið af vef viðkomandi stofnana/fyrirtækja.

Hefur þú ábendingar eða frekari spurningar? Hafðu samband hér