Í Bolungarvík er rekið svæðisútvarp í desember sem nefnist Lífæðin og er Þórður Vagnsson útvarpsstjóri. Sjálfsbjörg á Bolungarvík stóð fyrir þeirri nýbreytni s.l. sunnudag að vera með útvarpsbingó. Að sögn Önnu Torfadóttur, formanns Sjálfsbjargar á Bolungarvík var um tilraun að ræða sem heppnaðist að vonum þótt einhverjir byrjunarörðugleikar hafi gert vart við sig og um tíma fór símasambandið. Útvarpssendingar Lífæðinnar ná yfirleitt til fleiri staði á Vestfjörðum en Bolungarvík en Anna segir að sala kortanna hafi verið langmest í Bolungarvík, sem var að hluta til mjög slæmu veðri að kenna. „Við seldum á annað hundrað bingókort og vissi ég til að fólk safnaðist saman í heimahúsum og spilaði bingó. Margir vinningar voru í boði en aðalvinningurinn var 25 þúsund króna úttekt í Samkaupum.“ Anna segir að þetta hafi verið skemmtileg tilraun en útsendingin hafi dregist frekar á langinn. „Ef við gerum þetta aftur þá erum við reynslunni ríkari.“