Starfsemin

Bæta ber skattaumhverfi frjálsra félagasamtaka

Eygló Harðardóttir, alþingismaður, hefur að undanförnu vakið athygli á skattaumhverfi frjálsra félagasamtaka sem hún segir mun verra hér á landi en í nágrannalöndum okkar. Í grein í Fréttablaðinu skrifaði hún. “Það geta ekki verið rétt skilaboð til samfélagsins að hagkvæmara sé að græða sjálfur en að gefa náunganum. Frjáls félagasamtök hafa ekki farið varhluta af kreppunni. Framlög frá fyrirtækjum og einstaklingum hafa dregist saman, auk þess sem hið opinbera hefur minna getað stutt við starfsemi þeirra með beinum styrkjum. Á sama tíma hefur álag og eftirspurn eftir þjónustu aukist. Með breyttum skattareglum, sérstaklega hvað varðar góðgerðar- og líknarfélög, væri hægt að bæta starfsumhverfi frjálsra félagasamtaka umtalsvert. Starfsemin myndi eflast og þau yrðu betur í stakk búin að hlaupa undir baggann með ríki og sveitarfélögum við þessar erfiðu efnahagsaðstæður. Ríkið á að styðja við frjáls félagasamtök, ekki hagnast á starfsemi þeirra.”

Á Alþingi flutti Eygló breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið um að dánargjafir til slíkra félaga yrðu undanþegnar erfðafjárskatti. Tilefnið er að til stendur að hækka erfðafjárskatt úr 5% í 10% á næsta ári og sagði hún að algengt væri að almannaheillafélögum séu ánafnaðar gjafir úr dánarbúum. Hún furðar sig síðan á því að tillagan skyldi vera felld þar sem hún er samhljóða tillögu sem ráðherrarnir Össur Skarphéðinsson, Jóhanna Sigurðardóttir og Ögmundur Jónasson lögðu fram á sínum tíma.