Tvær hjólastólalyftur hafa verið settar upp á Bessastöðum, ein við inngang og ein sem veitir aðgengi niður í veislusal Bessastaða. Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins og fv. varaformaður Sjálfsbjargar, fagnar þessu en telur að enn sé aðgengi víða ábótavant.
„Aðgengið er orðið prýðilegt á Bessastöðum og fyrir okkur sem vorum þarna er þetta mikill gleðidagur, þar sem við höfum barist fyrir því að opinberar byggingar og samfélagið allt sé gert aðgengilegt fötluðu fólki,“ segir Þuríður Harpa.
Þó furðar hún sig á því að aðgengi í nýbyggðum íbúðum sé ekki betra.
„Þrátt fyrir lög um algilda hönnun mæli fyrir um aðgengi fyrir alla í nýju húsnæði þá er ekki nema 6% nýrra íbúða sem uppfylla þau lög. Það er mikið áhyggjuefni og við vonum að menn vakni til vitundar og Ísland verði aðgengilegt. Þetta var virkilega gott skref, sem stigið var þarna í morgun,“ segir Þuríður Harpa.