NPA miðstöðin skrifar:
Átthagafjötrar og vistarbönd
Þriðjudagur 5. maí er Evrópudagur um sjálfstætt
líf, sem er hugmyndafræði og lífssýn um valdeflingu fatlaðs fólks, stjórn á eigin lífi, jafnrétti og jafnræði okkar í samfélaginu. Við hjá NPA miðstöðinni viljum nota daginn til að vekja athygli á stöðu fatlaðs fólks á Íslandi og innleiðingu NPA, eða notendastýrðri persónulegri aðstoð.
Við viljum leggja áherslu á takmörkun ferðafrelsis og frelsis til búferlaflutninga bæði NPA notenda og notenda úr hefðbundna þjónustukerfinu. Í tilefni dagsins er stefnt að viðburði þar sem fólk verður í hlekkjum sveitarfélagsins og þannig vakin athygli á málefninu með þeim gjörningi.
Dæmi um heft ferðafrelsi er mjög takmörkuð aðstoð utan heimilis og ferðalög innan- og utanlands eru ekki einu sinni til í þjónustu hjá fólki sem ekki nýtur NPA samninga. Fatlað fólk á margt enga möguleika á ferðalögum í sumarbústað, útihátíðir eða á ættarmót í sumar líkt og mörgum þykir sjálfsagt. Gott dæmi um það er nýlegt viðtal í Fréttablaðinu við Hallgrím Eymundsson sem komst loks á útihátíð árið sem hann fékk NPA samning. Það var árið sem hann losnaði úr því „fangelsi“ sem fyrri þjónusta var.
Dæmi um heft frelsi til búferlaflutninga er að það krefst gríðarlegs umstangs og samningaviðræðna ef ætlunin er að flytja á milli sveitarfélaga. Fólk þarf jafnvel að flytja lögheimili sitt mörgum mánuðum áður en slíkar samningaviðræður geta hafist. Við það fellur núverandi þjónusta niður og notendur eru í hættu á að fá mjög skerta þjónustu í óákveðinn tíma. NPA notendum er nánast með öllu ógerlegt að flytjast á milli þjónustusvæða þar sem gerð nýrra samninga er öll í biðstöðu sem stendur. Til þess að bæta gráu ofan á svart er beinlínis í reglum sumra sveitarfélaga að ekki sé hægt að sækja um NPA nema hafa haft lögheimili þar í allt að 6 mánuði. Einnig hafa sum sveitarfélög svo til engan vilja til að bjóða upp á NPA samninga. Við viljum einnig vekja athygli á því að fólk er oft bundið átthagafjötrum innan sveitarfélagsins vegna þess að erfitt er að finna húsnæði sem er aðgengilegt fyrir fatlað fólk. Margir þurfa að flytja í blokkir sérstaklega byggðar fyrir fatlaða í stað þess að stefnan sé að gera sem mest af íbúðarhúsnæði aðgengilegt svo við höfum raunverulegt val um búsetu.
Við hjá NPA miðstöðinni viljum einnig nota daginn til að benda á kröfur okkar. Kröfur um að NPA verði lögbundinn réttur fatlaðs fólk hér á landi í öllum sveitarfélögum og að fjármagnið fylgi fólki við flutning á milli sveitarfélaga. Okkur finnst það sjálfsögð mannréttindi að geta flutt eins og annað fólk án þess að við það skerðist lífsgæði okkar verulega.