Starfsemin

Félagsmálaráðuneytið og Íbúðalánasjóður á villigötum: Aukalán vegna sérþarfa fatlaðs fólks

Að undanförnu hefur Íbúðalánasjóður verið að vekja sérstaka athygli á og auglýsa það sem kallað er aukalán fyrir fatlað fólk, en þessi lán eiga sér langa sögu eða allt frá því tímabili hinnar opinberu peningastefnu þegar lán töldust happafengur og fundið fé. Nú er um að ræða allt að 8 milljóna kr. lán, sem fatlað fólk getur fengið til viðbótar þeim allt að 20 milljónum kr. er almennt bjóðast hjá Íbúðalánasjóði vegna íbúðakaupa, en bæði þessi lán bera sömu vexti. Aukalánin eru skilgreind þannig hjá Íbúðalánasjóði: „Þeir sem hafa skerta starfsorku, eru fatlaðir eða hreyfihamlaðir geta fengið aukalán vegna sérþarfa til að gera breytingar á íbúðarhúsnæði vegna sérþarfa sinna eða til að kaupa eða byggja húsnæði sem hentar og er þess vegna dýrara en ella.“. Hér er kolröng hugmyndafræði á ferð sem þarf að endurskoða frá grunni.

Í stuttu máli á fatlað fólk að gjalda skerðinga sinna og fær að skuldsetja sig miklu meira en aðrir. Þarf því um aldur og ævi að bera þann umframkostnað sem fötlun umhverfisins veldur. Með því er m.a. átt við að lög og reglugerðir leyfa að aðilar á íbúðamarkaði byggi og selji íbúðir sem ekki henta fötluðu fólki, mismuni fólki, og því vill ríkisvaldið „koma á móts við“ þennan hóp Íslendinga og leyfa honum af einstakri „greiðasemi“ að skuldsetja sig meira en aðrir borgarar.

Hér verður að taka upp nýja stefnu sem fælist í því að sá umframkostnaður, sem fatlað fólk þarf að greiða vegna kaupa og breytinga á viðeigandi og nothæfri íbúð, fáist greiddur sem styrkur. Með því móti væri verið að skapa fötluðu fólki jöfn tækifæri í samfélaginu og jafnrétti á íbúðamarkaði. Slík fyrirgreiðsla þekkist vel á Norðurlöndum.

Um þessar mundir er verið að setja fram hugmyndir, bæði af ríkisvaldinu og samtökum fatlaðs fólks, um aukna samfélagsþátttöku fatlaðs fólk á öllum sviðum og raunveruleg mannréttindi til sjálfstæðs lífs, þ.m.t. að geta valið sér íbúð og búsetu eins annað fólk og hafa jafnan aðgang að vinnumarkaði. Grundvöllur slíkra hugmynda er jöfnun tækifæra og fjárhagslegra byrða borgaranna vegna grunnþarfa sinna því annað felur í sér endalausa mismunun og skerðingu á tækifærum. Það hvílir á félagsmálaráðuneytinu að beita sér fyrir þeim breytingum sem hér eru nefndar og þær þola ekki langa bið.

Höfundur er formaður Sjálfsbjargar, landssambands fatlaðra