Starfsemin

Óskað eftir þátttakendum í rannsókn á stöðu fatlaðra kvenna á vinnumarkaði

Hvað hindrar og hvað styður fatlaðar konur á aldrinum 50-67 ára til þátttöku á vinnumarkaði?

Meistaranemi í fötlunarfræði í Háskóla Íslands leitar að viðmælendum til að taka þátt í rannsókn þar sem ætlunin er að skapa þekkingu sem valdefli fatlað fólk til að bæta aðstæður sínar og inngildingu á vinnumarkaðinn.

Nýgengi örorku virðist vera hæst, 42%, hjá konum 50 ára og eldri. Eitthvað í lífshlaupi kvenna virðist gera að verkum að þær séu líklegri til að fara á örorku en karlar. Í rannsókninni verður þetta rannsakað nánar með eigindlegum rannsóknaraðferðum. Talað verður við konur á aldrinum 50-67 ára sem eru örorkulífeyrisþegar vegna heilsumissis á lífsleiðinni. Áhersla er á fjölbreytta hjúskaparstöðu.

Rannsóknin miðast að því að afla þekkingar út frá sjónarhornum, upplifunum og lífsreynslu þessara kvenna. Markmið rannsóknarinnar er að afla gagnlegrar þekkingar sem auki skilning á þörfum þessara kvenna og að skapa tækifæri til að ryðja úr vegi hindrunum sem konur í áþekkri stöðu kunni að verða fyrir. Tilgangurinn er að styðja þær betur til þátttöku og inngildingar á vinnumarkaðinn með það að markmiði að bæta lífskjör þeirra.

Rannsóknin verður vonandi einnig gagnleg til að auka skilning stjórnvalda og vinnumarkaðarins á hvernig uppfylla megi betur þarfir fatlaðs fólks til að stuðla að inngildingu á vinnumarkaðinn með árangursríkari hætti og um leið auka þátttöku þeirra í samfélaginu.

Þátttaka í rannsókninni felst í því að þáttakandi taki þátt í einu til tveimur viðtölum sem verða afrituð orðrétt og greind með eiginlegum rannsóknaraðferðum. Allar upplýsingar verða meðhöndlaðar sem trúnaðarmál. Öllum nöfnum, staðháttum og öðrum persónugreinarlegum upplýsingum verður breytt þannig að þær verða algjörlega ópersónugreinanlegar. Farið verður eftir íslenskum lögum varðandi persónuvernd, vinnslu og eyðingu frumgagna. Þátttaka þín í rannsókninni er því mikils virði.

Ef þú hefur áhuga á að taka þátt í rannsókninni eða fá nánari upplýsingar vinsamlegast hafðu samband við rannsakandann, Önnu Margréti Bjarnadóttur með tölvupósti [email protected] eða síma 7818708 (samtal eða sms).

Ábyrgðarmaður rannsóknarinnar er dr Stefan C. Hardonk, lektor, félagsvísindasvið, Háskóla Íslands, netfang: [email protected] og sími 8576017.