Nordisk Handikappförbund (NHF) eru samtök norrænna félaga hreyfihamlaðs fólks sem Sjálfsbjörg lsh. hefur tekið þátt í frá 1961. Félögin eru Dansk Handicap Forbund, Norges Handikapforbund, DHR Delaktighet, Handlingskraft, Rörelsefrihet og Invalidiliitto.
Þann 14. og 15. maí sl. var norrænn fundur félaga hreyfihamlaðra frá Danmörk, Noregi Svíþjóð, Finnlandi og Íslandi haldinn á Grand hotel. Fundir ráðsins eru haldnir í eitt til tvö skipti á ári og ræður formennska í ráðinu hvar fundir eru haldnir hverju sinni. Sjálfsbjörg lsh. er með formennsku í ráðinu og fundurinn því haldinn hér. Fundinn sátu Þuríður Harpa formaður Sjálfsbjargar lsh., Rúnar Þór varaformaður og Margrét Lilja fyrrverandi formaður sambandsins sem einnig stjórnaði fundinum af mikilli röggsemi.
Áherslumál fundarins var að þessu sinni atvinnumál hreyfihamlaðra, Cecilie Krogh frá Háskólanum í Álaborg mætti á fundinn og fór yfir doktorsrannsókn sína í þessum efnum og í kjölfarið voru umræður. Rannsókn Cecilie sýndi að fólk sem notast við hjólastól er meira en helmingi ólíklegra til að vera boðið í atvinnuviðtal, þrátt fyrir að uppfylla sömu hæfniskröfur og ófatlaður umsækjandi. Byggði rannsóknin á tilbúnum ferilskrám fyrir ófatlaða konu og karl sem og hreyfihamlaða konu og karl. Allar uppfylltu sömu hæfnisviðmið og voru þær nýttar til að sækja um 600 laus störf í Danmörku. Niðurstöðurnar voru að 17% líkur eru á að ófötluðum einstaklingi sé boðið í atvinnuviðtal en líkurnar á að hreyfihömluðum einstaklingi sé boðið í atvinnuviðtal eru einungis 7,7%. Cecilie rannsakaði einnig af hverju þessi munur stafaði og var niðurstaðan sú að vanþekking og fordómar, bæði meðvitaðir og ómeðvitaðir, spiluðu þar stóran þátt. Sambærilegar rannsóknir og niðurstöður er að finna frá öðrum löndum, t.a.m. Noregi og Kanada. Hér er hlekkur á rannsóknina https://vbn.aau.dk/ws/portalfiles/portal/644663489/PHD_CK.pdf
Niðurstaða fundarins var að ekki einungis þurfa atvinnurekendur og ríkið á fræðslu að halda heldur einnig þarf að fræða börn og unglinga. Besta leiðin til að sporna við fordómum og útilokun er að fræða komandi kynslóðir.
Á fundinum var einnig farið yfir stöðu hreyfihamlaðra í löndum og hverju félögin hafa unnið að og lá mikið efni fyrir fundinum, skýrslur landanna voru ræddar og sögðu Finnar og Svíar frá niðurskurði í málefnum fatlaðra nú þegar hægri borgaraflokkar hafa tekið við stjórnartaumunum en hann bitnar illa á fötluðu fólki. Úrræðum er ýmist að seinka eða fækka. Fjárveitingar til hernaðarmála eru m.a. taldar hafa haft áhrif á niðurskurð í velferðarmálunum. Þá hafa fötlunarhreyfingar í samstarfi við ríkisstjórnir og sveitarfélög skoðað aðgengi fatlaðs fólks og sér í lagi hreyfihamlaðara að sprengjubyrgjum sem nú er verið að koma upp í norrænu löndunum. Talsvert var rætt um P merki, einnig sérstök fríkort fyrir aðstoðarfólk og venslafólk fatlaðs fólks, slík kort voru samþykkt á Alþingi í byrjun maí hér á landi, rætt var um aðgang fatlaðra að íþróttaviðburðum og og kynfræðslu fatlaðra framhaldsskólanema en slíkri fræðslu er verulega ábótavant á norðurlöndunum.
Evrópska fötlunarkortið (European disability card) og hvaða möguleika það gefi fötluðu fólki á ferð þess um Evrópu, en það mun verða innleitt hér á landi. Starfshópar voru skipaðir sem munu vinna á milli funda og leggja hugmyndir og niðurstöður fram á næsta fundi sem verður í Kaupmannahöfn í byrjun október nk.