NPA miðstöðin hefur það markmið að veita fötluðu fólki á öllum aldri, sem kýs að nota beingreiðslur og notendastýrða persónulega aðstoð (NPA), stuðning við að sækja um þær (eða auka þær) hjá sveitarfélögum. Þegar beingreiðslur hafa verið samþykktar veitir miðstöðin aðstoð og ráðgjöf við starfsmannamál, svo sem að auglýsa eftir aðstoðarfólki, við ráðningar, launa- og skipulagsmál og fjölmörg praktísk atriði. Hún mun einnig veita fræðslu til fatlaðs fólks og aðstandenda. Til að kynna þessa starfsemi býður NPA miðstöðin samtökum fatlaðs fólks og aðstandenda upp á kynningu og fræðslu fyrir félagsmenn sína. Fræðslan getur farið fram þegar best hentar samtökunum og á þeim tíma dags/kvölds sem óskað er eftir. Fræðslan er samtökunum að kostnaðarlausu. Freyja Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri NPA miðstöðvarinnar, mun hafa umsjón með fræðslunni og hægt er að hafa samband við hana á netfangið [email protected].