Starfsemin

Rýr svör umhverfisráðherra um ferðamál hreyfihamlaðra

  1. þingmaður norðurausturkjördæmis, Kristján Þór Júlíusson, spurði umhverfisráðherra Svandísi Svavarsdóttur í dag, um hvað liði „undirbúningi lagafrumvarps sem heimili ferðir hreyfihamlaðra á vélknúnum ökutækjum utan vega á leiðum sem aðeins er leyft að fara um fótgangandi, svo þeim sé gert kleift að njóta útivistar sem er þeim annars illmöguleg, t.d. stangveiða eða ferða um þjóðgarða og önnur vernduð svæði?” eins og fram kom í skriflegri fyrirspurn frá saman þingmanni frá í mars 2011.

Í svari ráðherra þá kom meðal eftirfarandi fram: „Umhverfisráðuneytið hefur hug á því að gera breytingar á reglugerð nr. 528/2005 og hefur í því skyni óskað eftir tillögum Umhverfisstofnunar varðandi mögulegar undanþágur frá 17. gr. náttúruverndarlaga vegna utanvegaaksturs fatlaðra einstaklinga, með hliðsjón af ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Tillögur stofnunarinnar um breytingar á reglugerðinni hafa nú þegar borist og er nú unnið með þær af hálfu lögfræðinga ráðuneytisins. Gera má því ráð fyrir því að drög að breytingu á reglugerðinni verði á næstunni send til umsagnar viðeigandi aðila og væntanlega afgreidd í framhaldinu.”

Þingmaðurinn spurði hvað liði áðurnefndri vinnu en henni er ekki enn lokið, tæpu ári eftir að hún fór af stað.  Svör ráðherra voru fá,en hún lýsti þó yfir að hún hefði mikinn vilja til að koma umræddri vinnu í höfn. Hún væri hins vegar flókinn og ekki auðveld.

Hægt er að horfa á umræðurnar hér.