Sjálfsbjörg og ON – Orka náttúrunnar hafa undirritað samstarfssamning sem miðar að því að tryggja aðgengi hreyfihamlaðra að allri þjónustu og hleðslustöðvum ON um land allt. Bergur Þorri Benjamínsson, formaður Sjálfsbjargar, segir samstarfið mikið gæfuspor sem muni hjálpa fötluðu fólki að taka fullan þátt í orkuskiptum í samgöngum.
Guðjón Hugberg Björnsson, tæknistjóri hleðslunets ON, Kristján Atlason, forstöðumaður fyrirtækjamarkaðar ON, Bergur Þorri Benjamínsson, formaður Sjálfsbjargar og Ósk Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Sjálfsbjargar lsh. Mynd: Atli Már Hafsteinsson
Rafbílum og tengiltvinnbílum hefur fjölgað mikið á Íslandi undanfarin ár. Í mars 2021 var fjöldi rafbíla á landinu kominn yfir 7.000, og séu tengiltvinnbílar taldir með fer talan upp í ríflega 18.000. Um 45% seldra bíla á landinu á síðasta ári voru annað hvort rafbílar eða tengiltvinnbílar, og var hlutfallið einungis hærra í sjálfu höfuðbóli rafbílanna, Noregi.
Bergur Þorri er meðal þeirra sem nú þegar aka um á rafbíl með hjólastólalyftu. Í starfi sínu hjá Sjálfsbjörg hefur hann lagt áherslu á gott aðgengi fyrir þau sem vilja nýta sér nýja og vistvænni fararmáta.
„Samstarfið við ON er mjög ánægjulegt skref. Við hjá Sjálfsbjörg leggjum mikla áherslu á að fatlað fólk hafi sömu möguleika og aðrir á því að aka um á rafbílum í stað bensín- og díselbíla. Við höfum lagt megináherslu á tvennt; að fatlað fólk fái sambærilega styrki til breytinga á rafbílum og að aðgengi að hleðslustöðvum sé í lagi,“ segir Bergur Þorri.
Að ýmsu þarf að huga við hönnun aðgengilegra hleðslustæða. Bílastæðin þurfa að vera nægilega breið til þess að hjólastólanotendur komist auðveldlega í og úr bílnum, þau þurfa að vera vel merkt og gjarnan staðsett eins nálægt áfangastað og hægt er. Mikilvægt er að tryggja að árekstursvarnir og háir kantsteinar án fláa hefti ekki aðgengi að hleðslunum.
Hönnun hleðslustöðvanna sjálfra þarf svo að taka mið af því að hægt sé að nota þær úr sitjandi stöðu, og síðast en ekki síst þarf að koma þeim þannig fyrir að þær standi ekki í vegi fyrir hjólastólanotendum og fólki með barnavagna.
„Við höfum sett upp mikinn fjölda hleðslustöðva síðastliðin ár og höfum aflað okkur mikillar reynslu í þeim uppsetningum. Við höldum ótrauð áfram og erum alltaf að læra að gera betur í þessum efnum“ segir Guðjón Hugberg Björnsson, tæknistjóri hleðslunets ON. „Við leggjum ríka áherslu á aðgengi að hleðslunum okkar. Það er því mjög ánægjulegt fyrir okkur að geta nýtt þekkingu Sjálfsbjargar til þess að bæta aðgengið enn frekar.“
Meðal þeirra verkefna sem framundan eru er að þróa staðlaðar lausnir varðandi hlutfall og fjölda aðgengilegra hleðslustæða og fyrirkomulagið varðandi uppsetninguna. Ósk Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Sjálfsbjargar, segir samstarfið falla mjög vel að stefnu samtakanna í aðgengismálum, sem meðal annars felst í því að gera fólki, fyrirtækjum og stofnunum auðveldara að nálgast ráðgjöf um aðgengi fyrir alla.
„Ein helsta áskorunin við orkuskiptin er að fjölga hleðslustöðvum. Það á ekki síst við um hreyfihamlaða, sem einungis geta nýtt sér takmarkaðan hluta þeirra. Markmiðið með samstarfinu er að tryggja að rafbílar verði fyrir alla, bæði með því að ýta regluverkinu í rétta átt og finna bestu lausnirnar í hönnun hleðslustæða um land allt,“ segir Ósk.