Sjálfsbjörg landssamband fatlaðra og Sjálfsbjargarheimilið hafa í sameiningu ákveðið að setja á stofn Þjónustu- og þekkingarmiðstöð Sjálfsbjargar. Yfirmarkmið miðstöðvarinnar verður að veita þjónustu sem bætir stöðu og styrkir hag hreyfihamlaðs fólks í samfélaginu, sem jafningja meðal borgaranna. Miðað er við að helstu verkefni miðstöðvarinnar geti orðið eftirfarandi:
- Að veita hreyfihömluðu fólki svör á einum stað við sem flestum spurningum um réttindi sín.
- Að veita hreyfihömluðu fólki stuðning og aðstoð við að leita réttar síns.
- Að standa fyrir námskeiðum, til dæmis í formi jafningjafræðslu.
- Að tryggja aðgang að fagfólki sem hefur sérþekkingu á málefnum hreyfihamlaðs fólks svo og að tryggja aðgang sama hóps að fjármálaráðgjöf.
- Miðstöðin skal á sama tíma vinna að hugarfarsbreytingu í samfélaginu gagnvart hreyfihömluðu fólki með fræðslu fyrir ráðamenn og almenning.