Starfsemin

Starfsfólk Reykjadals gengur til stuðnings Reykjadal

Snemma í gærmorgun hófu starfsmenn Reykjadals að ganga frá Laugalandi í Holtum að Reykjadal, Mosfellsdal. Í dag kl. 14 er svo áætluð koma göngufólksins að húsakynnum Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra, Háaleitisbraut 13.  Starfsmennirnir hafa þá gengið um 130 km leið með farþega í hjólastólum til þess að vekja athygli á söfnun sem þeir hafa staðið fyrir vegna sumar- og helgardvalarinnar í Reykjadal. Söfnunin hefur gengið vonum framar en þegar safnast um 14 af þeim 15 milljónum sem þurfti til þess að halda starfseminni gangandi í vetur.

Til þess að þakka þessu kraftmikla unga fólki sem að söfnuninni stóð langar okkur að biðja sem flesta að slást í hópinn og ganga með okkur síðasta spölinn. Það er frábært hversu góð þátttakan í söfnuninni hefur verið og hversu góða umfjöllun hún hefur fengið og þannig um leið vakið athygli á málefnum fatlaðra barna á Íslandi.

Við hvetjum alla en þó sérstaklega félaga og aðildarfélög ÖBÍ að koma og ganga með okkur. Hægt er að fylgjast með staðsetningu hópsins alla leiðina á: www.depill.is/reykjadalur

Vonumst til að sjá sem allra flesta.