Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur ákveðið að hækka styrki til kaupa á sérútbúnum og dýrum bifreiðum fyrir hreyfihamlaða einstaklinga um 20%.
Vegna veikingar krónunnar á undanförnum misserum eru dæmi um að hreyfihamlaðir einstaklingar sem fest hafa kaup á sérútbúnum og dýrum bifreiðum hafi þurft að reiða fram mun hærri fjárhæðir fyrir bifreiðarnar en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir. Styrkirnir námu áður 50-60% af kaupverði bifreiðar, en að hámarki 5.000.000 kr. Eftir 20% hækkun mun fjárhæð styrksins verða að hámarki 6.000.000 kr. Styrkirnir eru veittir á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.
Alls voru greiddir 18 styrkir til kaupa á sérútbúnum og dýrum bifreiðum á árinu 2019, 15 á árinu 2018, 9 á árinu 2017 og 14 styrkir á árinu 2016.
Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Vegna þróunar gengismála undanfarið hefur kostnaður hreyfihamlaðra einstaklinga aukist töluvert við kaup á sérútbúnum bifreiðum. Með þessari reglugerð erum við að koma til móts við þá einstaklinga sem standa frammi fyrir óvæntum auknum kostnaði við kaup á bifreið, sem er nauðsynleg fyrir þeirra daglega líf.“
Sjálfsbjörg fagnar framtaki ráðherra. “Fólk sem pantað hafði bifreið í góðri trú í upphafi árs, stóð frami fyrir því að geta ekki leyst bifreiðina út nokkrum vikum seinna. Þessi styrk hækkun kemur því á afskaplega góðum tímapunkti.” Segir Bergur Þorri Benjamínsson formaður Sjálfsbjargar landsambands.