Erna Friðriksdóttir og Jón Margeir Sverrisson hafa verið útnefnd Íþróttakona og Íþróttamaður Íþróttasambands fatlaðra árið 2010 Jón Margeir er 18 ára sundmaður úr Ösp/Fjölni en Erna er 23 ára gömul skíðakona frá skíðadeild Hattar á Egilsstöðum. Voru viðurkenningar veittar á Hótel Sögu.
Jón Margeir hefur farið mikinn á árinu 2010 og sett alls 19 Íslandsmet í 11 greinum, 16 met í 25m laug og 3 met í 50m laug. Erna, sem gat því miður ekki verið viðstödd þegar viðurkenningar voru veittar, þar sem hún er nú við æfingar í Winter Park í Colorado í Bandaríkjunum, varð fyrr á þessu ári fyrsta íslenska konan til þess að öðlast þátttökurétt á Vetrarólympíumóti fatlaðra.