Starfsemin

UPPSKERA – Menningarhátíð í Reykjavík

Listir, fötlun og menning

Menningarhátíðin Uppskera fer fram dagana 8. febrúar til 8. mars í Reykjavík. Hátíðin er haldin í tilefni 20 ára afmælis fötlunarfræða við Háskóla Íslands og er henni ætlað að vekja athygli á framlagi fræðafólks, samtaka fatlaðs fólks og fatlaðs listafólks til íslenskrar menningar.

Tveir lykilviðburðir verða á dagskrá, málþing með listrænu ívafi í Háskóla Íslands 21. febrúar og sviðslistahátíð í Hörpu 22. febrúar. Þá verða fjölbreyttir viðburðir í tengslum við hátíðina víðs vegar um borgina, þar sem listsköpun fatlaðs fólks verður í forgrunni. Nánari upplýsingar um dagskrá má sjá á vef hátíðarinnar.

Aðgengi fyrir öll

Dagskrá hátíðarinnar er sett fram á auðlesnu máli og viðburðirnir haldnir á aðgengilegum stöðum. Allir viðburðir verða táknmálstúlkaðir og dagskrá í Hörpu verður einnig sjónlýst.

Hátíðin er öllum opin að kostnaðarlausu en nauðsynlegt er að taka frá miða á sviðslistahátíðina í Hörpu.