Menning - Tónlist og leikhús

Hér söfnum við upplýsingum um aðgengi á ýmsum menningarstöðum. Ef þú hefur upplifað gott aðgengi á einhverjum menningarstöðum víðs vegar um landið, sem ekki eru að finna hér á síðunni, endilega láttu okkur vita.

Borgarleikhúsið

Vefsíða Borgarleikhússins
Hjólastólanotendur fá afslátt af miðaverði líkt og aðrir öryrkjar. Gott aðgengi er fyrir hjólastóla inn í leikhúsið og innan þess. Það eru hjólastólastæði í Stóra salnum. Á Litla sviðinu eru margar tröppur en engin handrið. Á Nýja sviðinu er sviðsmyndin og sætaskipan. Það þarf að láta vita þegar miðinn er pantaður ef leikhúsgestur notar hjólastól. Salerni er fyrir hjólastólanotendur. Tvenn P-bílastæði eru fyrir utan (upplýsingar frá fötluðum leikhúsgest).

Menningarfélag Akureyrar (áður Leikfélag Akureyrar)

Vefsíða Menningarfélags Akureyrar

Menningarfélag Akureyrar er með sýningar á tveimur stöðum: Samkomuhúsinu og Hofi

Hof - Menningarhús

Mjög gott aðgengi er í Hofi og eru allar helstu upplýsingar um það á heimasíðu Menningarfélagsins hér.

Samkonuhúsið Akureyri

Samkomuhúsið á Akureyri er friðað, en þó er hægt að hringja á undan sér á viðburði til að óska eftir aðgengi. Hægt er að láta taka sæti frá fyrir hjólastól og setja ramp út svo að fólk í hjólastól komist inn.

Tjarnarbíó

Vefsíða Tjarnarbíós

Tjarnarbíó er aðgengilegt fyrir hjólastólanotendur. Rampur er frá götu upp á gangstétt og gengið er beint inn frá gangstéttinni. Hurðir eru breiðar, einnig hurð inn í salinn og í salnum er svæði þar sem gert er ráð fyrir einstaklingum í hjólastólum. Aðgengileg salernisaðstaða er einnig til staðar.
Þegar miðar eru pantaðir þarf að taka fram í tölvupósti á ef sýningargestur notar hjólastól. Miðaverð er misjafnt eftir því hverjir halda hvern viðburð og því fer eftir hverjum og einum viðburði hvort öryrkjar fái afslátt á sýningar í Tjarnarbíói eða ekki.

Þjóðleikhúsið

Vefsíða Þjóðleikhússins

Aðgengi hefur verið bætt í Þjóðleikhúsinu og má finna allar nýjustu upplýsingar um það hér.

Kvikmyndahús

Eftirfarandi upplýsingar um aðgengi í kvikmyndahúsum eru fengnar frá hreyfihömluðum einstaklingum og fyrirtækjunum sjálfum.

Smárabíó

Vefsíða Smárabíós

Fyrir utan Smáralind eru mörg sérmerkt stæði fyrir fatlað fólk. Aðgengi í miðasölu og upp í Smárabíó er gott, lyfta og rúllustigi. Fjögur stór salerni eru fyrir fatlaða, en þungar pumpuhurðar. Í öllum sölum eru hjólastólastæði, þó mismörg.

Kringlubíó

Vefsíða Sambíóa
Mörg sérmerkt stæði fyrir utan húsið, gott aðgengi inni í húsinu. Eitt salerni sérmerkt fyrir fatlaða og á kvennasalerninu er eitt salerni sem er rýmra en hin (myndi henta hreyfihömluðum sem geta gengið eða nota hækjur eða göngugrindur, ekki þó nægt pláss fyrir hjólastóla). Hjólastólastæði eru í tveimur sölum, sal 1 og 2, en í sal 3 getur hjólastóll verið við hliðina á sætaröðinni þar sem gengið er inn í salinn.

Háskólabíó

Vefsíða Háskólabíós
Tvö sérmerkt bílastæði fyrir fatlað fólk eru fyrir utan húsið, rétt við innganginn. Miðasala er á fyrstu hæð. Hjólastólastæði er öllum sölum uppi en ekki í salnum á neðri hæð. Fyrir þá sem ekki geta gengið stiga þarf að hafa þó nokkuð fyrir því að komast í lyftu niður á neðri hæð þar sem hún er stýrð með lykli sem starfsfólk geymir. Aðeins eitt salerni er fyrir fatlað fólk, staðsett hinu megin í húsinu. Fyrir þá sem eru lítið hreyfihamlaðir, geta gengið niður tröppur og þurfa ekki á rúmgóðu salerni að halda er það minni fyrirhöfn.

Sambíóin Egilshöll

Vefsíða Sambíóa
Gott aðgengi og aðstaða utandyra sem innan. Fyrir utan eru sérmerkt stæði fyrir fatlað fólk. Miðasala er á fyrstu hæð og bíósalirnir á annarri hæð, lyfta og rúllustigi milli hæða. Salerni fyrir fatlaða og hjólastólastæði í sölunum.

Bíó Paradís

Vefsíða Bíó Paradísar
Á heimasíðu bíósins er að finna greinagóðar upplýsingar um aðgengi.

Tónlistarsalir

Harpa

Vefsíða Hörpu

Gott aðgengi, nokkur salerni eru í húsinu fyrir fatlaða og lyftur á milli hæða. Sérmerkt bílastæði eru í bílakjallara.
Aðgengi í sölum er misjafnt, í nokkrum eru lausir stólar og þar er auðvelt að sitja í hjólastól við enda raðar eða einfaldlega taka einn stól í burtu og leggja hjólastólnum þar. Í Eldborgarsal, aðalsal Hörpu, eru 4 gjaldfrjáls stæði fyrir hjólastóla, við enda B og D stúku.  Einnig er hægt að taka út sæti fyrir hjólastóla víða um salinn fyrir gesti sem kaupa miða.  Athugið að hafa samband tímanlega við miðasölu, þ.e. áður en mætt er á staðinn, ef þörf er á stæðum fyrir hjólastóla.

Fólk sem notar heyrnartæki hefur verulegt gagn af tónmöskvakerfi eða sambærilegu kerfi sem er notað til að draga úr aukahljóðum og bæta hlustun.  Í Hörpu er hægt að fá afnot af slíkum búnaði, athugið að láta vita í miðasölu þegar miðar eru keyptir ef óskað er eftir afnotum af búnaðinum.

  1. Ef þörf er á aðstoð við blinda og sjónskerta eru gestir vinsamlegast beðnir um að láta vita af því tímanlega í miðasölu.

    Hreyfihamlaðir hafa einnig aðgang að fríum stæðum í bílakjallara og þá þarf að fylgja eftirfarandi ferli:
  2. Þar sem myndavél, sem greinir alla bíla sem fara um bílahúsið, getur ekki aðgreint P-miða merkta bíla frá öðrum þarf handhafi P-merkis þarf að senda tölvupóst á [email protected] eigi síðar en 3 klukkustundum fyrir viðburð/fyrirhugaða heimsókn.
  3. Eftirfarandi skal koma fram í tölvupóstinum:
  • Nafn og kt. handahafa P-merkis
  • Bílnúmer
  • Tímasetningar
  • Mynd af P-merki

Séu bílar ekki sannanlega tilkynntir með tölvupósti fyrir fram í samræmi við þetta fyrirkomulag gildir gjaldskrá bílakjallara Hörpu.

P-merktir bílar skulu leitast við að leggja í P-stæði sem eru alls 19 talsins. Vangreiðslugjald verður sent vegna ómerktra bíla samkvæmt gjaldskrá.

Óheimilt er að skilja P-merktan bíl eftir í stæði lengur en 10 klukkutíma. Gjaldskrá bílahúss tekur við að þeim tíma liðnum.

Starfsmenn 115 munu fylgjast með því að P-merktir bílar hafi verið skráðir fyrirfram í kerfið.

Salurinn

Vefsíða Salarins (Opnast í nýjum vafraglugga)

Á vefsíðu Salarins eru greinagóðar upplýsingar um aðgengi sem finna má hér.

Söfn

Borgarsögusafn Reykjavíkur

Facebooksíða Borgarsögusafns | Vefsíða Borgarsögusafns

Borgarsögusafn Reykjavíkur tók til starfa þann 1. júní 2014 en undir það heyra: Árbæjarsafn, Aðalstræti, Sjóminjasafnið í Reykjavík, Ljósmyndasafn Reykjavíkur og Viðey. Á heimasíðu safnsins er sérstök síða um aðgengi þar sem nálgast má allar upplýsingar um aðgengi á hverjum stað fyrir sig. Þá er einnig ókeypis aðgangur fyrir öryrkja gegn framvísun örorokuskírteinis.

Hefur þú ábendingar eða frekari spurningar? Hafðu samband hér