Siðareglur

1. gr. Markmið siðareglna

Markmið þessara reglna er að skilgreina það viðmót í samskiptum sem, fulltrúum Sjálfsbjargar landssambands hreyfihamlaðra (hér eftir Sjálfsbjörg), ber að sýna við störf á vegum landssambandsins. Með fulltrúum Sjálfsbjargar er hér átt við fulltrúa í stjórn, stjórnendur, starfsfólk skrifstofu, fulltrúa í nefndum Sjálfsbjargar auk undirverktaka sem taka að sér verkefni fyrir hönd Sjálfsbjargar sem landssambandið hefur stjórnunarlega ábyrgð á.

Siðareglur þessar ber ekki að skoða sem tæmandi lýsingu á góðum starfsháttum og skulu fulltrúar ávallt beita dómgreind sinni í samræmi við aðstæður.

2. gr. Lög og reglur

Við gætum þess í störfum okkar að fylgja stefnu, lögum, reglum og samþykktum Sjálfsbjargar. Við gætum hagsmuna landssambandsins og setjum þá ofar sérhagsmunum.

3. gr. Ábyrgð í samskiptum

Við gegnum störfum okkar af alúð og samviskusemi, gætum kurteisi, lipurðar og réttsýni og veitum þeim sem til okkar leita aðstoð og leiðbeiningar.

Við sýnum hvert öðru ávallt kurteisi og virðingu í samskiptum.

Við komum fram við fólk af fordómaleysi og tillitssemi.

Við berum virðingu fyrir margbreytileika fólks hvað varðar fötlun í víðum skilningi, félagslega stöðu, kynþátt, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, aldur, útlit, kynhneigð, kynvitund, kyneinkenni eða kyntjáningu á öllum sviðum samfélagsins.

Við gætum jafnræðis milli mismunandi fötlunar- og sjúklingahópa. Við forðumst hvers konar mismunun í framkomu, ræðu og riti.

Við virðum fundasköp, mætum stundvíslega og höldum okkur við efnið.

Við vörumst forræðishyggju, virðum rétt hvers annars til ólíkra skoðana og leggjum áherslu á málefnalega umræðu.

Við gagnrýnum málefnalega, hlustum og tökum gagnrýni.

Við grípum ekki fram í þegar aðrir tala og gefum öllum tækifæri til þess að klára mál sitt.

Við biðjum fólk að endurtaka sig ef við heyrum eða skiljum ekki.

Við virðum mismunandi tjáskiptaleiðir og beinum máli okkar að einstaklingnum sem við erum í samskiptum við en ekki túlki eða aðstoðarmanni.

Við segjum það sem okkur býr í brjósti án þess að meiða aðra, spyrjum, upplýsum og miðlum.

4. gr. Einelti, kynferðisleg áreitni og annað ofbeldi

Einelti, kynferðisleg áreitni og annað ofbeldi er ekki liðið. Við erum ávallt á varðbergi og okkur ber að bregðast við ef við verðum vitni að slíkri háttsemi.

5. gr. Ráðdeild í fjármálum

Við virðum fjárhagsáætlanir og aðhöfumst ekkert sem felur í sér misnotkun á eignum og fjármunum landssambandsins. Við virðum eftirlit og úttektir, sem framkvæmdar eru af skoðunarmönnum og endurskoðendum landssambandsins og leggjum okkar af mörkum til þess að markmið þess náist.

6. gr. Gjafir og fríðindi

Við þiggjum ekki gjafir, sem túlka má sem persónulega þóknun fyrir greiða eða ívilnun.

7. gr. Samskipti við fjölmiðla og framkoma á opinberum vettvangi

Að jafnaði kemur formaður Sjálfsbjargar fram fyrir hönd landssambandsins í fjölmiðlum nema annað sé ákveðið. Í samskiptum við fjölmiðla og á opinberum vettvangi högum við málflutning okkar í samræmi við stefnu Sjálfsbjargar og hugmyndafræði Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Við veitum réttar upplýsingar, fullyrðum ekki meira en vitneskja gefur tilefni til og gætum trúnaðar.

8. gr. Miðlun og endurskoðun

Formaður og framkvæmdastjóri bera ábyrgð á að kynna siðareglur Sjálfsbjargar fyrir nýjum fulltrúum landssambandsins. Siðareglurnar skulu teknar til umræðu í stjórn eftir árlegan landsfund og endurskoðaðar ef þurfa þykir.

9. gr. Trúnaður

Okkur ber að gæta þagmælsku um málefni sem við fáum vitneskju um í starfi okkar og trúnaður á að ríkja um eftir eðli máls eða samkvæmt lögum. Trúnaðarskylda helst þó látið sé af störfum. Siðareglurnar eru birtar á heimasíðu Sjálfsbjargar www.sjalfsbjorg.is

10. gr. Brot á siðareglum

Verði fulltrúar Sjálfsbjargar þess áskynja að tiltekin háttsemi stríði gegn siðareglunum, er rétt að vekja athygli stjórnanda á því. Í þessu samhengi er stjórnandi eftir atvikum framkvæmdastjóri eða formaður Sjálfsbjargar. Ef alvarlegt brot á siðareglum þessum á sér stað verður leitað til viðeigandi utanaðkomandi aðila.

Reglur þessar voru samþykktar af stjórn Sjálfsbjargar þann 19. ágúst 2024.